Aðalfundur GR – góður rekstur og stefnumótun 2018-2025 kynnt

Aðalfundur GR – góður rekstur og stefnumótun 2018-2025 kynnt

Aðalfundur Golfklúbbs Reykjavíkur fór fram í gær og var þátttaka á fundinum með ágætum. Farið var yfir skýrslu stjórnar og ársreikningur félagsins kynntur. Málefnalegar umræður sköpuðust um nýundirritaða viljayfirlýsingu klúbbsins við Reykjavíkurborg og voru áframhaldandi viðræður samþykktar.

Björn Víglundsson var endurkjörinn formaður Golfklúbbs Reykjavíkur og er því að hefja sitt þriðja ár sem formaður félagsins. Björn vill koma á framfæri þökkum til félagsmanna fyrir það traust sem honum er sýnt. Tveir nýir stjórnarmenn voru kosnir til stjórnarsetu, þeir Atli Þór Þorvaldsson og Sigurður H. Hafsteinsson en Guðni Hafsteinsson og Gunnar Már Sigurfinnsson gáfu ekki áframhaldandi kost á sér.

Aðrir stjórnarmenn gáfu kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu og er stjórn félagsins þannig skipuð: Björn Víglundsson formaður, Ragnar Baldursson varaformaður. Aðrir stjórnarmenn eru Guðný H. Guðmundsdóttir aðalstjórn, Ólafur W. Hand aðalstjórn, Anna Björk Birgisdóttir aðalstjórn, Elín Sveinsdóttir aðalstjórn, Margeir Vilhjálmsson aðalstjórn. Varastjórn skipa: Jón B. Stefánsson, Atli Þór Þorvaldsson og Sigurður H. Hafsteinsson.

Hagnaður af starfsárinu var 93 milljónir króna en til samanburðar var hagnaður árið á undan 51,8 milljón króna. Tekjur námu alls 461,8 milljónum króna samanborið við 424,9 milljónir króna á árinu 2016. Golfklúbbur Reykjavíkur annaðist rekstur tveggja golfvalla á árinu ásamt því að sjá um rekstur Bása.

Tillaga stjórnar til árgjalda 2018 var samþykkt af aðalfundi og er gjaldskráin eftirfarandi:

Félagsmenn 27-70 ára, kr. 103.000
Félagsmenn 19-26 ára, kr. 51.500
Félagsmenn 71-74 ára, kr. 77.000
Félagsmenn 75 ára og eldri, kr. 77.000
Félagsmenn 75 ára og eldri*, kr. 51.500
*enda hafi félagi verið í GR í a.m.k. 10 ár

Ákveðið var að innheimta ekki inntökugjald í klúbbinn fyrir árið 2018.

Athugið – greiðsluseðlar verða ekki sendir út á starfsárinu 2018 heldur verða eingöngu stofnaðar kröfur í heimabanka.

Breytingar voru gerðar á gjaldi kylfinga 6-18 ára árið 2017 og verður skráning þessa aldursflokks áfram með þeim hætti fyrir árið 2018. Frá og með 1. janúar 2018 greiðir þessi aldurshópur æfingagjald hjá klúbbnum og fer skráning og greiðsla fram í gegnum Nóra á slóðinni https://grgolf.felog.is/ - hægt er að velja á milli þrenns konar æfingagjalds: heilsárs-, hálfsárs- og sumaræfingar. Æfingagjöldin og hvað er innifalið í þeim er hægt að sjá nánar um hér. Með þessum hætti hefur Golfklúbbur Reykjavíkur aðlagað sig enn frekar að kerfi frístundarstyrks sveitarfélaganna.

Fjölgun hefur orðið á félagatali klúbbsins frá fyrra ári og virðist áframhaldandi aðsókn vera í klúbbinn en nú þegar hefur myndast biðlisti fyrir næsta tímabil.

Á árinu var 10% aukning leikinna hringja á völlum GR:

Korpa 9 holur – 29.826 hringir samanborið við 28.544 á árinu 2016
Korpa 18 holur – 30.187 hringir samanborið við 28.738 á árinu 2016
Grafarholt – 32.780 hringir samanborið við 27.208 á árinu 2016
Samtals voru leiknir 92.793 hringir á völlum Golfklúbbs Reykjavíkur samanborið við 84.490 leikna hringi á árinu 2016.

Aukning var á aðsókn GR-inga á vinavelli en þeir voru einnig fleiri í ár en fyrri ár eða 10 talsins. Heildarfjöldi leikinna hringja á vinavöllum var 7.638 á árinu 2017 samanborið við 6.872 árið áður en þá voru vinavellirnir einum færri.

Formaður félagsins fór yfir lykilverkefni stjórnar fyrir árið 2018 og líta þau svona út:

• Vinna að innleiðingu stefnu
Stefnumótun GR er í fullum gangi. Markmið stjórnar er að hefja innleiðingu á stefnu félagsins.
• Uppbygging vallarins í Grafarholti
Vinna við framtíð vallarins í Grafarholti er í fullum gangi. Samtal við Reykjavíkurborg er í góðum farvegi og er það markmið stjórnar að ljúka þessum viðræðum á árinu 2017 og marka skýra stefnu um völlinn og endurbætur á honum á starfsárinu.
• Golfskálar
Endurnýjun skálanna í Grafarholti og Korpu eru á stefnuskrá stjórnar. Marka skal skýra stefnu og hefja verkið á árinu 2017
• Æfingaaðstaða innandyra
Mikilvægt er að kylfingar GR hafi aðgang að góðri aðstöðu innandyra. Marka skal skýra stefnu í því á árinu 2017.
• Ljúka greiðslu yfirdráttar og hefja uppbyggingu á ný

Stefnumótun Golfklúbbs Reykjavíkur 2018-2025:
Haustið 2016 ákvað stjórn GR að tímabært væri að hefjast handa við langtíma stefnumótun fyrir klúbbinn. GR er einn af stærri golfklúbbum í Evrópu með golfvelli í hjarta höfuðborgar, sem eru forréttindi sem fáir golfklúbbar búa við. Í ljósi þess þótti stjórninni mikilvægt að vanda til verka og vinna að framtíðaruppbyggingu í góðri sátt og samvinnu við þá sem málið varðar, það er félagana í klúbbnum og Reykjavíkurborg.

Niðurstaða stefnumótunarvinnu ásamt skýrslu stjórnar og ársreikningi má finna í skjölum hér fyrir neðan.

Golfklúbbur Reykjavíkur vill koma fram þökkum til Ólafi Arinbirni fundarstjóra fyrir faglega og góða fundarstjórn.

Stjórn, framkvæmdarstjóri og starfsfólk klúbbsins þakkar félagsmönnum fyrir gott starfsár.

Til baka í yfirlit