Berglind Björnsdóttir hefur leik á morgun, fimmtudag, á 1. stigi úrtökumótsins fyrir LET Evrópumótaröðina. Guðrún Brá Björgvinsdóttir úr GK hefur einnig leik í mótinu á morgun.
Mót helgarinnar verður leikið í Marokkó en þar mun lokaúrtökumótið einnig verða leikið um miðjan desember, þetta er í fyrsta sinn sem þær Berglind og Guðrún Brá reyna fyrir sér á þessu úrtökumóti. Alls er keppt á þremur keppnisvöllum á 1. stigi úrtökumótsins fyrir LET Evrópumótaröðina og komast um 30 efstu áfram á lokastigið. Á Palm vellinum þar sem Berglind og Guðrún Brá keppa eru um 50 keppendur.
Eins og GR-ingar vita varð Berglind stigameistari Eimskipsmótaraðarinnar 2016-2017 en Guðrún Brá varð Íslandsmeistari í holukeppni í KPMG-bikarnum sem leikið var í Vestmannaeyjum síðastliðið sumar.
LET mótaröðin er sú sterkasta í Evrópu en þær Ólafía Þórunn Kristinsdóttir og Valdís Þóra Jónsdóttir hafa báðar verið með keppnisrétt á mótaröðinni undanfarin tvö ár.
Hægt er að fylgjast með skori og stöðu í mótinu hér
Við sendum Berglindi góðar kveðjur og óskum henni góðs gengis á vellinum um helgina.
Golfklúbbur Reykjavíkur