Bréf frá formanni - janúar 2017

Bréf frá formanni - janúar 2017

Björn Víglundsson formaður Golfklúbbs Reykjavíkur:

Það er við hæfi að byrja fyrsta bréf ársins með því að óska ykkur öllum, félagsmönnum í GR, gleðilegs nýs árs með von um að golfguðirnir verði ykkur náðugir á árinu 2017. Það má hið minnsta segja um veðurguðina, en það þarf að fletta upp í elstu mönnum til þess að muna eftir annari eins veðurtíð.

Golf var leikið langt fram eftir vetri og var Korpan opin mestan hluta nóvember. Sá litli snjór sem látið hefur sjá sig í vetur hefur horfið jafn harðan. Ef svo fer fram sem horfir hljótum við að láta okkur hlakka til vorsins og sumarins og að þá taki á móti okkur golfvellir í miklu stuði.

En þó að ekki sé mikið golf spilað þessa dagana er nóg að gera hjá GR. Nú í byrjun febrúar verður blásið til félagsfundar þar sem stefnumótun Golfklúbbs Reykjavíkur verður á dagskrá. Það eru allir velkomnir og hvattir til að mæta á fundinn og leggja þar orð í belg og hafa áhrif á stefnumótun klúbbsins. Fundurinn verður haldinn 4. febrúar n.k. og er auglýstur nánar á heimasíðu klúbbsins.

Vetrarstarfið er að hefjast af fullum þunga þessa dagana. Púttmótaraðir karla og kvenna eru að fara í gang og hvet ég alla til að taka þátt í þeim. Það er skemmtileg dægradvöl á vetrarkvöldum og heldur pútternum heitum fyrir sumarið. Æfingaprógramm GR fyrir börn og unglinga er svo komið á fullan skrið, en þar var kynnt ný dagskrá á Aðalfundi og er markmið okkar að gera enn betur í því að þjálfa upp öfluga kylfinga fyrir framtíðna.

Það er mikil hvatning fyrir afreksfólk framtíðarinnar að fylgjast með gangi Ólafíu Þórunnar. Hún mun hefja leik á Bandarísku mótaröðinni nú um næstu helgi. Það verður spennandi að fylgjast með henni og stöndum við GR-ingar þétt við bakið á henni. Ætlunin er m.a. sú að efna til fjáröflunar fyrir hana til þess að hjálpa henni að komast í gegnum sitt fyrsta keppnistímabil. Nánar verður greint frá því á næstu dögum.

Viðræður við Reykjavíkurborg um endurbyggingu vallarins í Grafarholti eru einnig á fullri ferð og hafa gengið vel. Við vonumst til þess að hafa nokkuð skýra mynd af því hvernig það verk gæti unnist þegar sól fer að hækka á lofti í vor, en nánar um það síðar.

Vallastarfsmenn okkar eru í miklum gír og mikið af verkefnum unnin á veturna til að undirbúa vellina fyrir sumarið. Vel hefur viðrað til þess og er meðal annars verið að þróa nýtt áburðarprógramm sem verður spennandi að sjá hverju skilar í vor.

Við minnum svo auðvitað á að Básar eru opnir alla daga vikunnar og það er ekki seinna vænna en að dusta rykið af kylfunum og hefja undirbúning fyrir vorkomuna, það er aldrei að vita nema það vori snemma í ár og þá þurfum við að vera tilbúin!

Að lokum hvet ég ykkur til að mæta á félagsfundinn 4. febrúar, það er mikilvægt að á hann verði vel mætt og sem flestir komi og segi hug sinn.

Með GR kveðju,
Björn Víglundsson

Til baka í yfirlit