Sumarið er komið og biðin senn á enda. Henni er þó ekki alveg lokið, móðir náttúra sér til þess. En kylfingar hafa í gegnum árin ekki látið það á sig fá og við höldum bjartsýn inn í veturinn, nei ég meina sumarið.
Undirbúningur fyrir opnun valla stendur nú sem hæst. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um að sá undirbúningur hefur verið nokkuð flókinn. Engu að síður er stefnt að því að opna Korpuna næstu helgi, 12. maí. Tímalega séð er það í góðu meðallagi og engin ástæða til að örvænta. Völlurinn er í fínu standi og virðist þola ágætlega þessa dynti í veðurguðunum. Skráning í Opnunarmót mun hefjast á morgun, þriðjudag og verður auglýst síðar í dag.
Á fimmtudaginn, Uppstigningardag, verður svo hreinsunardagur á Korpunni. Þá verður einnig fyrsta tækifæri kylfinga til að spila völlinn. Við hefjumst handa um morguninn, hreinsum til á brautum, fáum léttar veitingar og þeir sem taka þátt í hreinsunarstörfum geta svo spilað. Við vonumst til að sjá sem flesta á fimmtudaginn, fagna sumrinu, fegra völlinn og viðra golfkylfurnar.
Þegar þessi orð eru rituð virðist vera örlítið lengra í opnun Grafarholtsins. Þar hefur mikið gengið á í vor, næturfrost upp á hvern einasta dag og sökum hærri legu landsins er yfirleitt kaldara þar en á Korpunni. Við tökum stöðuna daglega og munum að sjálfsögðu gera okkar besta að opna þar sem allra fyrst. Mig langar til þess að nota þetta tækifæri og þakka vallastarfsfólki okkar á báðum völlum sérstaklega fyrir dugnað þeirra í vetur við erfiðar aðstæður. Þið hafið staðið ykkur frábærlega með framkvæmdastjórann í broddi fylkingar.
Miklar framkvæmdir hafa staðið yfir á Korpu við endurgerð búningsklefa. Nú er því verki næstum lokið. Búið er að flísaleggja sturtuklefa, endurnýja alla búningsaðstöðu og búa til sérstakt viðburðarherbergi þar sem hópar geta hist og snætt saman að leik loknum. Sem fyrr höfum við notið einstakrar aðstoðar sjálfboðaliða úr Golfklúbbi Reykjavíkur við þessa framkvæmd. Ósérhlífni þeirra fyrir félagið er aðdáunarverð og fá þeir þrjú þúsund þakkir fyrir dugnaðinn. Þó verkinu sé að mestu lokið verður smiðshöggið rekið í júní þegar við fáum glæsilega skápa inn í búningsklefa karla og kvenna með lyklum. Þá geta kylfingar geymt föt og verðmæti á meðan leik stendur. Aðstaðan verður því öll hin glæsilegasta.
Á meðan við bíðum eftir veðrinu er auðvitað tilvalið að skella sér í Bása og dusta rykið af sveiflunni. Nýir boltar bíða okkar þar og í Básum er auðvitað alltaf sól og sumar. Unnið er að því að koma sjálfgreiðslukerfi í gang en tæknilegir örðugleikar hafa orðið til þess að ekki sé búið að opna fyrir kerfið ennþá.
Ég hlakka til að sjá ykkur á hreinsunardeginum núna á fimmtudaginn sem og við opnun valla, það er komið sumar!
Með GR kveðju,
Björn Víglundsson