Bréf frá formanni - mars 2017

Bréf frá formanni - mars 2017

Bréf frá formanni

Í vikunni náðum við kærkomnum áfanga, en þá varð dagurinn lengri en nóttin. Jafndægur voru þriðjudaginn kl. 10:28. Þetta eru góðar fréttir fyrir alla Íslendinga, en sérstaklega okkur golfarana, því það þýðir að nú styttist í opnun valla.

Undirbúningur er í fullum gangi og nú er margt áhugavert sem hægt er að segja frá. Mikil endurnýjun stendur yfir á matsalnum okkar á Korpunni og verður skemmtilegt að opna hann fyrir félagsmönnum í vor. Búið er að skipta um gólfefni, mála og taka allt í gegn. Þegar við mætum á völlinn tekur á móti okkur nýr og glæsilegur veitingastaður. Það er sérstök ástæða til þess að þakka fjölmörgum félagsmönnum sem gefið hafa vinnu sína við þessar endurbætur, þið vitið hverjir þið eruð.

Í kvöld yljar svo Ólafía Þórunn okkur vonandi um hjartaræturnar með flottri spilamennsku. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um frábært gengi hennar, þið hafið auðvitað öll fylgst vel með því. En þrátt fyrir smávægilega hraðahindrun í síðustu viku erum við auðvitað óendanlega stolt af þessum flotta GR-ingi og hennar frammistöðu. Hún mun hefja leik KIA Classic mótinu í Kaliforníu kl. 20:50 á íslenskum tíma í kvöld. Áfram Ólafía!

Félagsstarfið hefur gengið vel í vetur og nú hverri púttmótaröðinni af annarri að ljúka. Þá taka næstu verkefni við. Unglinga- og afrekshóparnir okkar eru leið til Spánar til þess að stunda sínar æfingar og það á ugglaust einnig við um mörg ykkar. Ég óska þeim sem eiga slíka ferð í vændum ánægjulegrar ferðar.

Undirbúningur golfvallanna okkar hefur gengið mjög vel. Nú þegar þessi orð eru rituð hafa flatir í Grafarholti og á Korpu verið sandaðar og á þær borinn áburður. Það þykir býsna snemmt fyrir slíkar aðgerðir en vonandi mun það hafa þau áhrif að flatirnar verði góðar þegar vellirnir verða opnaðir. Margvísleg önnur verkefni, stór og smá, eru unnin að vetrarlagi og kapp á það lagt að koma öllu í gott ástand fyrir vorið.

Við hjá GR munum á næstu dögum kynna fyrir ykkur nýjan og glæsilegan GR-merktan fatnað sem félagsmönnum býðst að kaupa á hagstæðu verði. Boðið verður upp á sérstaka mátunardaga og hvetjum við alla GR-inga til þess að kaupa og klæðast merktum GR fatnaði. Nánari upplýsingar um þessa nýjung verða veittar á allra næstu dögum.

Jæja, fleira var það ekki að sinni. Nú látum við okkur hlakka saman til sumarins 2017.


Með GR kveðju,
Björn Víglundsson

Til baka í yfirlit