Þegar þessi orð eru rituð er Esjan farin að hvítna niður í miðjar hlíðar og dagsbirta til golfiðkunar heldur farin að minnka. Það breytir ekki þeirri staðreynd að haustið hefur verið frábært til golfleiks og þó ekki verði þeir fleiri golfdagarnir getum við sátt við unað. Ég hef þó ágæta trú á því að enn megi ná örlitlu meira golfi út úr golfsumrinu 2017. Ég vona að þér takist það lesandi góður.
Við lokuðum Grafarholtinu um miðjan október og hófust þá starfsmenn vallarins strax handa við vetrarverkefnin. Búið er að gata og sanda allar flatir, bera á þær og koma þeim í vetrarbúning. Þá hófst nokkuð stórt verkefni við að þurrka upp völlinn okkar og hófst það inn á 7. braut. Þar verður stórt niðurfall gert vinstra megin við brautina og það tengt beint við holræsakerfi borgarinnar. Með þessari aðgerð ætti að vera hægt að minnka mikið það vatn sem rennur í gegnum völlinn á veturna og því bæta aðstæður sem grasið okkar býr við. Það verður áhugavert að sjá hvaða árangri aðgerðin mun skila okkur. Það er hið minnsta ljóst að svipaðar aðgerðir í kringum flatir hafa gert kraftaverk.
Á Korpu er enn leikið golf og verður það vonandi eitthvað áfram. Vetrarverkefnin eru engu að síður hafin þar líka. Helstu verkefnin haustsins á Korpu eru aðgerðir á 18. braut, þar sem hún verður löguð og lengd nær ánni okkar og svæðið snyrt. Einnig er í undirbúningi nýr rauður teigur á þessari braut, en mikil eftirspurn hefur verið eftir því að gera upphafshöggið á þessari braut aðgengilegra.
Undirbúningur fyrir Aðalfund GR 2017 stendur nú sem hæst. Stjórn klúbbsins er að ljúka við gerð stefnu GR sem kynnt verður sérstaklega á fundinum. Stefnan er unnin í samstarfi stefnumótunarnefndar, sem starfaði síðasta vetur, og stjórnarinnar. Ætlunin er að kynna og leita eftir samþykki Aðalfundar fyrir þessari stefnu. Verður hún kynnt fyrir félagsmönnum á næstu vikum. Lykilatriði stefnu GR eru eftirfarandi:
- GR komi sér upp heilsársaðstöðu til iðkunar golfíþróttarinnar
- Golfvellir GR séu á hæsta mælikvarða
- Golfiðkun GR miðist að markvissu starfi fyrir alla aldurshópa og getustig
- Félagsstarf GR sé við hæfi ólíkra hópa klúbbsins
- Þjónusta í kringum GR-golf sé í fararbroddi
Við hljótum öll að geta verið sammála um þetta. Það er því full ástæða til þess að hvetja félagsmenn GR til að kynna sér stefnuna og mæta á Aðalfund GR, hann verður haldinn þann 5. desember n.k.
Með golfkveðju,
Björn Víglundsson, formaður GR