Þá er sumrinu að ljúka og haustið að taka við. Golfsumrinu lýkur þó ekki alveg strax og má enn finna tíma til þess að viðra golfkylfunar enda vellirnir ekkert farnir að gefa eftir og einhverjar gráður eftir á hitamælunum. Það er um að gera að nýta þann tíma vel.
Sumarið hefur verið frábært. Við sem störfum fyrir klúbbinn erum hið minnsta afar ánægð með hvernig til hefur tekist í sumar. Þar ber auðvitað fyrst að nefna frábæra golfvelli. Fyrir það eiga okkar ágætu vallastarfsmenn mikið hrós skilið. Þó vissulega hafi veðurguðirnir verið okkur hliðhollir síðasta vetur, þá hefur markvisst starf og breytt aðferðarfræði ekki síður haft áhrif á útkomuna. Í Grafarholti var t.a.m. mikil vinna unnin síðasta vetur við að losna við aðkomuvatn og þurrka upp viðkvæm svæði sem haft hefur mjög góð áhrif á grasvöxt. Þessi vinna mun halda áfram í vetur og ég tel fulla ástæðu til bjartsýni á að okkur takist að bæta verulega gæði valla okkar með þessari vinnu.
Afrekin voru ekki bara unnin af vallastarfsfólki. Kylfingarnir okkar hafa líka staðið sig mjög vel og sigrarnir verið margir. Árangur Ólafíu Þórunnar er auðvitað öllum kunnur, en ég veit að allir GR-ingar eru stoltir af þessari frábæru afrekskonu. Árangurinn í barna- og unglingastarfinu var einnig frábær og uppskárum við mikið af flottum titlum. Berglind Björnsdóttir stóð sig svo frábærlega á Eimskipsmótaröðinni en hún varð Íslandsmeistari í holukeppni og stóð uppi sem sigurvegari á mótaröðinni. Frábær árangur hjá henni. Listinn yfir árangur sumarins er langur og sannarlega of langur fyrir þennan stutta pistil, en til ykkar allra fer hrós fyrir gott golfsumar.
Það hefur oft verið sagt að sjálfboðaliðastarf í klúbbi eins og GR sé dautt og engin leið til þess að virkja það. Mig langar að leiðrétta þennan misskilning. Sjálfboðaliðastarf í GR er spriklandi af lífi og mörg góð dæmi um það. Sem dæmi um þetta má nefna starf foreldra í barna og unglingastarfinu. Það er mjög gaman að sjá hve mikið líf er í því starfi og fer það vaxandi með hverju árinu. Félagar í GR tóku líka til hendinni síðasta vetur og endurgerðu veitingasalinn á Korpu og þessum sömu aðilum fannst svo gaman að þeir hafa beðið um fleiri verkefni. Svo hafa einstaklingar komið inn og lagt hönd á plóg við mótahald, og er Mercedes-Benz holukeppnin gott dæmi um það. Við í stjórn klúbbsins þökkum ykkur öllum, sem lagt hafa hönd á plóg í sumar, kærlega fyrir ykkar framlag. Starf ykkar er ómetanlegt og eftir því tekið.
Úti skín sólin, skellið ykkur nú í golf áður en það verður um seinan og njótið haustlitanna á völlunum okkar. Það er ávísun á að haustið verði ykkur ánægjulegt.
Með golfkveðju,
Björn Víglundsson
Formaður GR