ECCO pútt: Spennandi lokaumferð framundan

ECCO pútt: Spennandi lokaumferð framundan

Pétur Geir Svavarsson er aðra vikuna í röð með besta skor kvöldsins en að þessu sinni var hann einn um hituna og hlýtur því verðlaun sem hann missti af í síðustu viku en þá voru þrír jafnir. Aukinheldur er hann rokinn upp í 2. sætið í einstaklingskeppninni og liðið hans tók einnig stökk uppá við svo allt getur skeð.

Lokakvöldið er föstudagskvöldið 7. apríl
Svo það sé á hreinu er næsti fimmtudagur föstudagur, ekki klikka á því.
Rástímar verða þannig að efstu 15 liðin mæta um kl. 19 og efsta liðið fer af stað um kl. 20. Önnur lið geta hafið leik eins og venjulega frá 16:30 til 18:00. Annars fer þetta bara eins og það fer.

Þegar síðustu menn hafa lokið leik þarf ég sjálfboðaliða til að raða borðum og stólum inná púttvöllinn í hvelli. Borðin og stólarnir verða uppi í litla æfingaherberginu svo þetta ætti ekki að verða mikið mál fyrir hrausta menn.

Verðlaunaafhendingin, sem er fyrir alla, hefst um kl. 21. Það eru ekki einungis þeir sem ná einhverjum sætum sem fá verðlaun heldur verður eitthvað af vinningum fyrir þá sem voru ekki alveg eins góðir og hinir. Verðlaunaskráin er ekki klár ennþá frekar en fyrri daginn en það verður eitthvað spennandi – ég trúi bara ekki öðru.

Sem sagt: Þeir sem eru búnir að pútta um miðjan dag fara bara heim, horfa á fréttirnar sem dæmi, koma svo galvaskir í partýið uppúr kl. 20 til að rabba við félagana, fylgjast með þeim bestu og hugsanlega hirða upp einhverja vinninga þegar þar að kemur. Til að fá verðlaun verða menn að vera með í partýinu.

Boðið verður uppá léttar veitingar eins og undanfarin ár, þó ekki bjór sem verður til sölu á 500 kallinn eins og verið hefur.

Ef það eru einhverjar spurningar varðandi lokakvöldið þá er bara að hafa samband hvenær sem er.

Nokkrir félagar hafa gefið mér flotta vinninga og færi ég þeim mínar bestu þakkir.

Ég er ekki frá því að þetta geti bara orðið þrusugaman þegar upp er staðið.

Annars er ég bara öskrandi kátur með þetta allt saman.

Hér að neðan er staða liða og einstaklinga eftir 9. umferð í ECCO-púttmótaröðinni.


Bestu kveðjur,

Halldór B. Kristjánsson
898 3795
leturval@litrof.is

Til baka í yfirlit