Jæja drengir, nú eru bara tvær umferðir eftir þeas. næsta fimmtudag og svo lokakvöldið föstudagskvöldið 7. apríl. Verið með það alveg á hreinu.
Fyrir þá sem ekki hafa verið með áður verður smá snarl á boðstólum og verðlaunaafhending í lokin. Ekki láta deigan síga þó að þið séuð ekki í efstu sætunum því dregið verður úr „skorkortum“ eins og sagt er og þá eiga þeir séns sem ekki ná verðlaunasæti í þetta sinn.
Ég er að láta mér detta það í hug að hafa veisluna í lokin uppi á púttgólfinu og til að það gangi upp verð ég að fá þátttakendur til að bera upp stóla og borð í hvelli eftir að leik lýkur. En eins og venjan hefur verið hefja bestu 10 liðin leik nánast á sama tíma eða um kl. 19:30
Karl Ómar er enn með þægilega stöðu í 1. sæti í einstaklingnum og bræðurnir Ragnar og Kristinn koma þar á eftir en ef farið er í meðaltalið breytist staðan töluvert og eins og sjá má getur allt gerst. Minna er um sviptingar í liðakeppninni en lið nr. 5 hefur haldið fyrsta sætinu síðustu umferðir en lið 9 er aðeins 4 höggum á eftir.
Kristinn Ólafsson, Kristján Ó. Jóhannesson og Pétur Geir Svavarsson léku allir á 54 höggum sem var besta skor kvöldsins. Ég skellti þremur miðum, með nöfnum þeirra í skál, og lét hlutlausan aðila draga um vinningshafann og upp úr skálinni kom nafn Kristjáns og hlýtur hann vinning 8. umferðar.
Ég biðst afsökunar á hversu seint pistilinn birtist en ég er búinn að vera í tómu tjóni með tölvumálin í allan dag og vona bara að hún Dóra á skrifstofunni ná að vista þetta inn á netið.
Verðlaun
Nokkrir félagar hafa boðið mér verðlaun fyrir lokakvöldið og er það æðislegt. Ef einhverjir fleiri eru í þeirri aðstöðu að geta gaukað að mér einhverjum verðlaunum þá er það vel þegið og gerir það að verkum að fleiri fái einhvern glaðning en ella. Ég er þó ekki að grenja neitt í ykkur, bara ef þetta liggur vel við höggi.
Úrslitin, sem fylgja alltaf þessum pistlum mínum, eru í Excel-skjali og til að opna það verður að smella á „Enable Macros“ og þá á skjalið að opnast.
En erum við þá ekki bara kátir?
Hér að neðan er staða liða og einstaklinga eftir 8. umferð.
Bestu kveðjur,
Halldór B. Kristjánsson
898 3795
leturval@litrof.is