Keppni í Eimskipsmótaröðinni 2016-2017 lauk um helgina þegar keppt var um GR bikarinn á Securitasmótinu. Það voru þau Berglind Björnsdóttir úr GR og Vikar Jónsson úr GK sem stóðu uppi sem stigameistarar og er það í fyrsta sinn sem þau sigra á stigalista mótaraðar þeirra bestu.
Á Securitasmóti helgarinnar voru það þau Karen Guðnadóttir úr GS og Aron Snær Júlíusson úr GKG sem fögnuðu sigri og tóku við GR bikarnum á lokahófi sem fram fór í Grafarholtsskála í gærkvöldi. Þetta er í annað sinn sem keppt er um bikarinn.
Aron Snær lék hringina þrjá á 204 höggum (67-70-67) og var tveimur höggum betri en GR-ingurinn Haraldur Franklín Magnús sem lék á 206 höggum (66-68-72), Guðmundur Ágúst Kristjánsson varð í þriðja sæti á 2017 höggum (69-68-70). Í kvennaflokki lék Karen á 224 höggum, hún lokahringinn á pari og var í heildina á +11 (77-76-71). Berglind Björnsdóttir úr GR varð önnur á 225 höggum eða +12 (74-78-73), í þriðja sæti varð Gunnhildur Kristjánsdóttir úr GK á 226 höggum eða +13 (72-78-76).
Önnur úrslit helgarinnar má finna á golf.is
Við þökkum keppendum, samstarfsaðilum og öllum þeim sem að móti helgarinnar komu kærlega fyrir samstarfið.
Golfklúbbur Reykjavíkur