Holukeppni GR 2017 – Mercedes-Benz bikarinn: Böðvar Bragi Pálsson stóð uppi sem sigurvegari

Holukeppni GR 2017 – Mercedes-Benz bikarinn: Böðvar Bragi Pálsson stóð uppi sem sigurvegari

Golfklúbbur Reykjavíkur bauð upp á nýjung í vor fyrir félagsmenn þegar Holukeppni GR var endurvakin. Langt er um liðið síðan holukeppni hefur verið í boði fyrir félgsmenn og var nú keppt með nýju sniði. Styrktaraðili keppninnar var Bílaumboðið Askja og hlaut keppnin nafnið Mercedes-Benz bikarinn.

Keppni hófst með forkeppni um miðjan maí og lauk með úrslitaleik um miðjan september og má því segja að keppt hafi verið í allt sumar. Forkeppnin, sem var punktakeppni með forgjöf, stóð í viku og máttu þátttakendur leika fleiri en einn hring ef þeir kusu svo. Það voru síðan 128 punktahæstu keppendurnir úr forkeppninni sem komust áfram í holukeppnina.

Holukeppnin var leikin með fullri forgjöf, þannig að keppandinn með hærri leikforgjöf nýtti mismuninn á leikforgjöf á erfiðustu holum vallarins.

Þeir sem léku til úrslita léku 7 leiki og alls voru leiknir 127 holukeppnisleikir í keppninni, til úrslita léku Hjörtur Ingþórsson og Böðvar Bragi Pálsson. Eftir æsispennandi og vel leikinn úrslitaleik, sem fram fór á Korpúlfsstaðarvelli, fóru leikar svo að Böðvar tryggði sér sigur á 18. holu. Sá hluti vallarins sem leikinn var í lokaviðureigninni var Landið-Áin.

Mercedes-Benz bikarinn hefur hlotið afar góðar undirtektir félagsmanna og hafa keppendur látið vel af fyrirkomulaginu. Búast má við því að mikill fjöldi félagsmanna muni taka þátt í forkeppninni á næsta ári, en ljóst er orðið að þessi keppni er komin til að vera.

Golfklúbbur Reykjavíkur og Bílaumboðið Askja þakkar þeim fjölmörgu keppendum sem tóku þátt í Mercedes-Benz bikarnum á tímabilinu sem er að líða og óskar Böðvari Braga, sigurvegara keppnarinnar, innilega til hamingu með árangurinn.


Mynd: f.v. Atli Þorvaldsson mótsstjóri, Arna Rut Hjartardóttir markaðsfulltrúi Öskju, Böðvar Bragi Pálsson sigurvegari, Hjörtur Ingþórsson sá aðili sem lenti í öðru sæti og Ómar Örn Friðriksson framkvæmdastjóri GR.

Til baka í yfirlit