Hreinsunardagur, endurbætt klúbbhús og mátunardagur á nýjum GR fatnaði

Hreinsunardagur, endurbætt klúbbhús og mátunardagur á nýjum GR fatnaði

Ágætu félagsmenn,

Eins fram kom í bréfi formanns sem sent var út sl. föstudag munu báðir vellir klúbbsins opna formlega um komandi helgi. Nú langar okkur að biðja ykkur, félagsmenn góðir, um aðstoð við að gera völlinn tilbúinn fyrir opnun. Á morgun, fimmtudaginn 4. Maí, frá klukkan 17:00 munum við taka höndum saman og klára nokkur mikilvæg verk sem eftir eru. Við ætlum eingöngu að taka Korpu fyrir þetta árið. Mjög góð veðurspá er fyrir fimmtudaginn og því um að gera að koma í heimsókn og gera sér glaðan dag. Margar hendur vinna létt verk.

Mæting er í endurbætt klúbbhús okkar að Korpu þar sem Hólmar Freyr Christiansson vallarstjóri útdeilir verkefnum á mannskapinn. Í lokin verður Hörður Traustason og hans góða starfsfólk með drykki frá Ölgerðinni og grillaðar pylsur fyrir þá sem taka þátt í fegrun Korpu.

Samhliða hreinsunardegi ætlum við að hafa mátunardag á nýjum Footjoy fatnaði fyrir félagsmenn. Starfsmenn frá ÍSAM verða á staðnum til að aðstoða fólk. Eins og sjá má undir skjöl hér að neðan má sjá það úrval sem er í boði ásamt þeim verðum sem fatnaðurinn fæst á fyrir félagsmenn GR. Innifalið í öllum verðum er ísaumað lógó GR. Í boði verður 20% afsláttur á fatnaði til 21. maí. Frá og með opnun valla geta félagsmenn farið í golfverslanir okkar bæði í Grafarholti og Korpu og pantað sinn fatnað fyrir komandi sumar. Afhendingartími er um 15 virkir dagar.

Helstu verkefni hreinsunardags eru þessi:
Hreinsa til í kringum klúbbhús
Vinna við glompur vallarins
Týna rusl á öllu svæðinu
Sem og önnur verk sem útdeilt verður við mætingu.
Hlökkum til að sjá sem flesta og kynnast nýjum félögum í klúbbnum!

Ómar Örn Friðriksson,
Framkvæmdarstjóri

Til baka í yfirlit