Liðakeppni GR 2017 - Eimskipsbikarinn

Liðakeppni GR 2017 - Eimskipsbikarinn

Golfklúbbur Reykjavíkur fór af stað með liðakeppni vorið 2016 en þar geta golfhópar keppt sín á milli. Árið 2016 tóku 13 lið þátt en nú í ár voru þau 16 talsins. Gert er ráð fyrir að þessi keppni muni fara vaxandi á næstu árum.

Styrktaraðili keppninnar í ár var Eimskip og hlaut keppnin nafnið Eimskips bikarinn. Keppt var með útsláttarfyrirkomulagi þannig að úr hverri viðureign tveggja liða komst sigurliðið áfram í næstu umferð.

Allir leikirnir fóru fram á Korpúlfsstaðarvelli. Fjórir keppendur léku fyrir hvert lið í hverri umferð og voru leiknar 9 holur þar sem hver viðureign samanstóð af þremur leikjum. Leikið var með fullri forgjöf. Einn leikurinn var fjórleikur þar sem tveir leikmenn úr hvoru liði léku saman, þeir leika hvor sínum bolta og gildir betra skorið á hverri holu. Hinir tveir leikirnir í hverri viðureign voru holukeppnisleikir eða tvímenningur.

Viðameira fyrirkomulag var síðan í úrslitaleiknum þar sem 8 leikmenn úr hvoru liði léku 18 holu viðureignir. Leikinn var einn fjórmenningur þar sem tveir liðsfélagar léku einum bolta til skiptis, síðan voru 6 tvímenningsleikir. Úrslitaleikurinn var því 7 leikir.

Til úrslita í ár léku golfhóparnir FORE (A lið) og Faxar og var mikil spenna var í úrslitaleiknum. Fjórmenningsleikurinn endaði þannig að jafnt var með liðunum eftir 18 holur. Í tvímenningingsleikjunum unnu hvort liðið þrjá leiki. Grípa þurfti til bráðabana þannig að einn leikmaður úr hvoru liði lék 10. holuna á Korpúlfsstaðavelli og fór bráðabaninn þannig að Faxar höfðu betur og bera titilinn Liðameistarar GR 2017, óskum við Föxum til hamingju með sigurinn.

Til baka í yfirlit