Pétur Geir Svavarsson er besti púttarinn skv. Ecco-púttmótaröðinni 2017. Hann sigraði Karl Ómar Jónsson með einu höggi, en Karl Ómar hafði haft forystuna eftir 9 umferðir en komst því miður ekki á lokakvöldið. Endasprettur Péturs Geirs var eftirtektarverður en hann var með besta skor þrjár síðustu umferðirnar og er því verðskuldaður sigurvegari.
Í liðakeppninni var minni keppni og sigraði lið nr. 5 næsta örugglega eftir að hafa verið í forystu mestallan veturinn. Lið 5 skipa þeir bræður Ragnar Ólafsson og Kristinn Ólafsson ásamt þeim feðgum Guðmundi S. Guðmundssyni og Guðmundi Ó. Guðmundssyni.
Óska ég sigurvegurunum til hamingju með árangurinn.
Ég vil sérstaklega þakka þeim fjölmörgu félögum sem komu færandi hendi til mín með verðlaun.
Framkvæmdirnar á Korpunni settu svip sinn á mótaröðina þetta árið og varð að fresta einni umferð vegna framkvæmdanna. Bera varð inn stóla og borð á hverjum fimmtudegi til þess að menn gætu sest niður og að hverri umferð lokinni varð að bera þessa sömu stóla og borð út úr salnum. Svona gekk þetta allan veturinn og er því engin furða að umsjónarmaður sé búinn í bakinu.
Lokahófið var svo haldið uppi á púttvellinum sjálfum og sáu þátttakendur um að bera inn á völlinn stóla og borð og tæma hann svo aftur að hófi loknu. Takk kærlega fyrir þetta drengir. Það er ómetanlegt að eiga svona góða félaga. Ekki má gleyma hlut Atla Þórs Þorvaldssyni, excel-sérfræðingi, fyrir að halda utan um stöðuna af festu og öryggi.
Lokahófið varð svo ekki eins fjölmennt og ég hafði búist við og er það eflaust mér að kenna, það var ekki sterkur leikur að framlengja mótaröðina um eina viku, hefði eflaust átt að halda mig við upphaflegt plan og ljúka henni 31. mars þar sem ég veit að margir stíluðu sínar utanlandsferðir við lok mótaraðarinnar. Biðst ég afsökunar á þessum mistökum.
Svo að endingu þakka ég öllum fyrir þátttökuna í vetur og vonandi sjáumst við allir á næsta ári og gangi ykkur vel í golfinu í sumar.
Hér að neðan er lokastaðan í ECCO-púttmótaröðinni 2017.
Bestu kveðjur,
Halldór B. Kristjánsson
898 3795
leturval@litrof.is