Meistaramót - hola í höggi á 13. braut

Meistaramót - hola í höggi á 13. braut

Þorbjörn Guðjónsson, sérfræðingur í hjartasjúkdómum og keppandi í karlaflokki 50+ á Meistaramóti GR fór holu í höggi á öðrum keppnisdegi en hann lék 13. holuna, sem er 4. holan á Ánni, á einu höggi. Þetta er í fyrsta skipti sem Þorbjörn, sem er reynslumikill kylfingur með sex í forgjöf nær þessu draumahöggi allra kylfinga.

Þorbjörn valdi járn númer níu á teig, en holan var í um það bil 120 metra fjarlægð frá teig, frekar aftarlega á flötinni og skorin vinstra megin. Að sögn Þorbjörns miðaði hann hægra megin við flaggstöng. Höggið heppnaðist vel, boltinn lenti á flöt og tók brot til vinstri. Þar sem flötin liggur hærra en teigurinn gat Þorbjörn ekki verið viss um að boltinn hefði endað í holunni, fyrr en hann kom að holunni. En ætla má að hjartslátturinn hafi verið í hraðara lagi hjá hjartalækninum á leiðinni á flötina.

Við óskum Þorbirni kærlega til hamingju með þetta afrek!

Golfklúbbur Reykjavíkur

Til baka í yfirlit