Mjólkursamsalan – mótaröð eldri kylfinga hefst á þriðjudag

Mjólkursamsalan – mótaröð eldri kylfinga hefst á þriðjudag

Golfklúbbur Reykjavíkur hefur ákveðið að halda áfram með mótaröð eldri kylfinga, sem endurvakin var árið 2015. Nýr styrktaraðili fyrir mótaröðina í ár er Mjólkursamsalan og mun mótaröðin heita Mjólkursamsalan – mótaröð eldri kylfinga. Mótum verður fækkað frá því sem verið hefur og verður í ár leikið fjórum sinnum. Leikið er á þriðjudögum. Mótaröðin er innanfélagsmót fyrir félagsmenn GR 50 ára og eldri.

Mót sumarsins verða fjögur talsins og teljast þrír bestu hringirnir til verðlauna á mótaröðinni, þannig að í höggleiknum telja 3 bestu skorin í höggum talið og í punktakeppni telja samanlagt þrír punktahæstu hringirnir. Keppendur þurfa því að taka þátt og skila inn skori í að minnsta kosti þremur mótum af fjórum til þess að vinna til verðlauna. Veitt verða verðlaun fyrir þrjú efstu sætin í punktakeppni og höggleik í báðum flokkum karla og kvenna. Skipting í flokka kemur fram hér að neðan. Sami keppandinn getur ekki unnið til verðlauna fyrir bæði punktakeppni og höggleik.

Verði keppendur í verðlaunasætum jafnir að höggum eða punktum ræðst röð af fjölda mótasigra á mótaröðinni. Sé það jafnt ræður besta skor, síðan næst besta og svo koll af kolli þar til röð keppenda í verðlaunasæti liggur fyrir.

Þrír fyrstu hringirnir í höggleiknum á mótaröðinni verða hafðir til hliðsjónar við val kvennasveita GR fyrir sveitakeppnina og er vísað til reglugerðar um sveitakeppni til nánari skýringa.

Mótin munu fara fram á eftirtöldum dagsetningum:
Korpúlfsstaðavöllur 20. Júní
Grafarholtsvöllur 11. Júlí
Korpúlfsstaðavöllur 25. Júlí
Grafarholtsvöllur 3. september

Hvert mót fyrir sig verður auglýst á heimasíðu klúbbsins og í markpósti með góðum fyrirvara. Eftir að síðasta umferðin hefur verið leikin fer fram lokahóf fyrir þátttakendur á Korpúlfsstöðum. Dagsetning fyrir hófið og fyrirkomulag verður kynnt þegar nær dregur.

Skipting flokka í mótaröðinni verður sem hér segir:
Kvennaflokkur: 50-64 ára – Rauðir teigar
Kvennaflokkur: 65 og eldri – Rauðir teigar
Karlaflokkur: 50-69 ára – Gulir teigar
Karlaflokkur: 70 ára og eldri – Rauðir teigar

Þátttakendur verða að bóka sína rástíma sjálfir og það má vera hvenær sem er á viðkomandi leikdegi. Mótsgjald er 1.500 kr. sem greiða þarf í golfbúðinni áður en leikur hefst á þeim velli sem spilað er á hverju sinni. Að leik loknum skila menn svo inn skorkorti með kennitölu og undirskrift frá meðspilara í þar til gerðan kassa sem staðsettur verður í golfbúðinni.

Tilboð verður í veitingasölu fyrir keppendur þá daga sem mótin verða haldin bæði á Korpúlfsstöðum og í Grafarholti.

Mótsstjóri mótaraðarinnar er Atli Þór Þorvaldsson.


Nefnd eldri kylfinga

Til baka í yfirlit