Níundi vinavöllur sumarsins - Garðavöllur hjá GL

Níundi vinavöllur sumarsins - Garðavöllur hjá GL

Okkar níundi vinavöllur í sumar verður hjá Golfklúbbnum Leyni – Garðavöllur. Samstarf klúbbana hófst upphaflega árið 2004 og hefur samstarfið gengið gríðarlega vel, þetta er þá þrettánda árið í röð sem við GR-ingar höfum vinavallaraðgang hjá kylfingunum á Akranesi og fögnum við því. Óhætt er að segja að Garðavöllur sé sá vinavöllur sem félagsmenn heimsækja hvað mest yfir sumrin og má reikna með að framhald verði á því.

Sömu reglur gilda áfram, líkt og undanfarin ár, félagsmenn Golfklúbbs Reykjavíkur greiða kr. 1.800 í vallargjald í hvert sinn er þeir leika Garðavöll og skiptir þá ekki máli hvort leiknar séu 9 eða 18 holur. Áður en leikur hefst skal framvísa félagsskírteini og greiða vallargjald í afgreiðslu. Samkomulagið gildir ekki ef félagsmenn leika með hópum, sem gert hafa sérstaka samninga um afslætti af vallargjöldum, eins og t.d fyrirtækjamót. Útbúinn verður bókunarlinkur á síðu GR á www.golf.is undir rástímar – vellir.

Með þessari frétt hefur Golfklúbbur Reykjavíkur tilkynnt níu vinavelli fyrir komandi sumar og eru þeir eftirfarandi:

Svarfhólsvöllur Selfossi
Hamarsvöllur Borgarnesi
Vestmannaeyjavöllur Vestmannaeyjum
Hústóftarvöllur Grindavík
Hólmsvöllur Leirunni
Kálfatjarnavöllur Vatnsleysuströnd
Haukadalsvöllur í Haukadal
Kirkjubólsvöllur í Sandgerði
Garðavöllur á Akranesi

Það styttist í sumarið og óhætt að fara að láta sér hlakka til.

Með ósk um góða helgi!

Ómar Örn Friðriksson,
framkvæmdarstjóri

Til baka í yfirlit