Nordic Tour mótaröðin – keppni hefst í Danmörku í dag

Nordic Tour mótaröðin – keppni hefst í Danmörku í dag

GR-ingarnir Haraldur Franklín Magnús og Guðmundur Ágúst Kristjánsson ásamt Axeli Bóassyni úr GK hefja leik í dag í úrslitakeppni Nordic Tour mótaraðarinnar, mótaröðin er í þriðja styrkleikaflokki atvinnumótaraða í Evrópu. Haraldur Franklín og Axel eru báðir í hörkubaráttu um að vera í fimm efstu sætum stigalistans en það mun tryggja þeim keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni á næsta tímabili.

Alls verða leiknar 54 holur á mótinu og er keppnisfyrirkomulagið óhefðbundið, keppnisvöllurinn hefur verið settur upp sem 12 holu völlur og er leikið á á Storådalen vellinum í Holstebro. Alls eru 78 keppendur í mótinu. Í dag verða leiknir tveir 12 holu hringir eða 24 holur samtals, og komast 30 efstu í gegnum niðurskurðinn og eru þeir allir öruggir með að fá verðlaunafé.

Á föstudag verða leiknar 12 holur og komast þá 12 efstu áfram. Eftir fjórða hringinn sem er einnig 12 holur komast fjórir efstu áfram í gegnum niðurskurðinn. Lokahringurinn verður síðan 6 holur, þar sem fjórir kylfingar keppa um sigurinn.

Hægt er að fylgjast með stöðu og skori keppenda hér

Til baka í yfirlit