Nýjung í mótahaldi: MERCEDES-BENZ bikarinn – Holukeppni GR

Nýjung í mótahaldi: MERCEDES-BENZ bikarinn – Holukeppni GR

Golfklúbbur Reykjavíkur í samvinnu við Mercedes-Benz kynnir nýjung í mótahaldi fyrir félagsmenn sína sumarið 2017. Mikil eftirspurn hefur verið í félaginu um bætt móthald fyrir innanfélagsmót og er sú vinna í fullum gangi. Eitt af því sem við viljum kynna fyrir félagsmönnum er Mercedes-Benz bikarinn. Mótið er innanfélagsmót.

Sigurvegari Mercedes-Benz bikarsins hlýtur í verðlaun árgjald í GR fyrir árið 2018 og afnot að Mercedes-Benz bifreið í heila viku. Verðlaun fyrir annað sætið verður flugmiði til Evrópu auk afnota af Mercedes-Benz bifreið í heila viku. Í lok sumars verður svo öllum keppendum mótsins boðið til lokahófs í boði Mercedes-Benz á Korpúlfsstöðum. Um er að ræða glæsilegt lokahóf þar sem meðal annars verður dregið úr gjafabréfum til evrópu.

Við ætlum að hafa skemmtilegt golfsumar á völlum okkar á árinu 2017 og verður fyrirkomulag mótsins eftirfarandi: Keppni hefst með 18 holu forkeppni sem stendur í heila viku, bæði fyrir karla og konur. Aldurstakmark er 19 ára og eldri. Forkeppnin verður leikin á Korpúlfsstaðavelli. Hver keppandi má leika allt að 7 hringi í forkeppninni í þeirri viku sem forkeppnin stendur.

Forkeppnin er punktakeppni Stabelford með fullri forgjöf. Hæst er gefin forgjöf 24 hjá körlum og 28 hjá konum. Punktahæsti hringurinn gildir ef þátttakandi kaupir fleiri en einn hring í forkeppninni. Ef fleiri en 128 keppendur skrá sig til leiks, komast 128 punktahæstu keppendurnir áfram í holukeppnina. Séu þátttakendur færri en 128 þá eru 64 keppendur sem komast í holukeppni (ef færri þá 32 eða 16).

Dregið verður um leikröð milli þeirra sem komast áfram í holukeppnina. Þegar búið er að draga í fyrstu umferð raðast sjálfkrafa í næstu umferðir samkvæmt töflu sem birt verður áður en mótið hefst.

Eftir forkeppni verður birt hverjir mætast í útsláttarkeppninni. Gefin verða upp símanúmer og netföng keppenda. Einnig verða gefin upp tímamörk fyrir hverja umferð keppninnar. Keppendur sem mætast í hverjum leik fyrir sig koma sér saman um leikdag og leiktíma. Þeir geta komið sér saman um völl, hvort sem er Grafholtsvöll eða Korpúlfsstaðavöll. Einnig geta þeir komið sér saman um að leika á einhverjum vinavalla GR.

Holukeppnin er leikin með forgjöf sem fer þannig fram að mismunur á leikforgjöf keppenda raðast á 18 holur samkvæmt erfiðleikastuðli forgjafar eins og fram kemur á skorkorti. Keppendur taka leikforgjöf samkvæmt forgjafartöflu. Þó skal engin keppandi fá hærri leikforgjöf en 24 hjá körlum og 28 hjá konum.

Frekari upplýsingar um Mercedes-Benz bikarinn verða kynntar nánar fyrir félagsmönnum þegar nær dregur sumri.

Golfklúbbur Reykjavíkur þakkar Mercedes-Benz fyrir að vera styrktaraðili mótsins og hlakkar til samstarfsins á komandi tímabili.

Mynd: F.v. Ásgrímur Helgi Einarsson sölustjóri Mercedes-Benz, Arna Rut Hjartardóttir Markaðsfulltrúi, Ómar Örn Friðriksson framkvæmdastjóri GR og Atli Þór Þorvaldsson mótsstjóri.

Til baka í yfirlit