Ólafía Þórunn lauk leik sínum á Blue Bay mótinu á samtals +7 og endaði í 35. sæti í mótinu. Mótið fór fram á Hainan eyjunni í Kína og er hluti af LPGA mótaröðinni. Þetta er 25. mót Ólafíu á sínu fyrsta keppnisári sem atvinnukylfingur. Hún hefur þegar tryggt sér þátttökurétt á næsta tímabili.
Ólafía Þórunn lék hringina fjóra á 72-75-71-76 eða +7 samtals. Keppendur í mótinu voru alls 81 og er keppnisvöllurinn í Kína einn sá lengsti á LPGA mótaröðinni á þessu tímabili. Shanshan Feng frá Kína sigraði mótið á samtals -9 og var einu höggi á undan Moryia Jutanugarn frá Thailandi.
Með árangri sínum á mótinu í Kína fór hún upp um tvö sæti á stigalistanum og tryggði sér þátttökurétt á lokamóti LPGA mótaraðarinnar. Mótið, CME Group Chamionship, verður leikið í Naples Florida og hefst á fimmtudag, 16. nóvember.
Við óskum Ólafíu til hamingju með frábæran árangur og hlökkum til að fylgjast með henni á vellinum í Florida!
Golfklúbbur Reykjavíkur