Ólafía Þórunn hefur leik í stjörnuráshóp á morgun með Cheyenne Woods og Michelle Wie

Ólafía Þórunn hefur leik í stjörnuráshóp á morgun með Cheyenne Woods og Michelle Wie

Á morgun, fimmtudag, hefst leikur á LPGA mótaröðinni í Bank of Hope Founders mótinu sem leikið verður á Wildfire Golf Club/JW Marriott Phoenix Desert Ridge Resort & Spa í Phoenix Arizona. Ólafía Þórunn mun leika í stjörnuráshóp fyrstu tvo dagana með þeim Cheyenne Woods og Michelle Wie sem báðar eru frá Bandaríkjunum.

Eins og kunnugt er þá voru þær Woods og Ólafía skólafélagar í Wake Forest háskólaliðinu í Bandaríkjunum og þekkjast þær vel. Þær hafa leikið saman nokkra æfingahringi á vellinum undanfarna daga, Ólafía dvelur hjá Woods á meðan á dvölinni í Arizona stendur en hún er búsett í Phoenix. Kylfuberi Ólafíu um helgina heitir Zac og er þaulreyndur en hann hefur meðal annars verið aðstoðarmaður þeirra Carolin Masson frá Þýskalandi og Thailensku systranna Ariya Jutanugarn og Moriya Jutanugarn.

Michelle Wie er 27 ára gömul og sigraði Opna bandaríska meistarmótinu árið 2014, sem var hennar fyrsti sigur á risamóti. Michelle er ein þekktasta golfkona allra tíma, frægust fyrir að hafa leikið í karlaflokki á PGA mótaröðinni aðeins 16 ára gömul, árið 2004. Mótið um helgina er númer 240 sem hún spilar á LPGA mótaröðinni.

Keppnisfyrirkomulag helgarinnar er fjórir keppnisdagar, 72 holur með niðurskurði eftir 36 og er heildarlengd vallarins 6.100 metrar.

Þetta þríeyki á rástíma kl. 14:33 að íslenskum tíma á 10. teig vallarins, það verður bæði skemmtilegt og spennandi að fylgjst með því hvað atvinnukylfingurinn Ólafía Þórunn gerir á sínu þriðja LPGA móti.

Hér er hægt að sjá rástíma í mótinu fyrstu tvo dagana

Til baka í yfirlit