Ólafía Þórunn í 6. sæti eftir þrjá hringi í Skotlandi

Ólafía Þórunn í 6. sæti eftir þrjá hringi í Skotlandi

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir hefur lokið leik á 3. keppnisdegi á Aberdeen Asset Management mótinu sem fram fer á North Ayrshire í Skotlandi. Ólafía er í 6. sæti fyrir lokahringinn á +1 samtals en hún lék á einu höggi yfir pari í dag eða 73 höggum við krefjandi aðstæður. Ólafía hefur leikið hringina þrjá á 73-70-73.

Í dag fékk Ólafía fugl á 1. holu dagsins og það var eini fugl dagsins hjá henni. Hún tapaði höggum á 9. og 12. en aðrar holur lék hún á pari.

Ólafía hóf leik á 10. teig á 2. keppnisdegi. Hún fékk tvo skolla á fyrstu tveimur holunum en lagaði stöðu sína með fugli á 13., og erni á 14. og fugli á 18. Hún tapaði síðan tveimur höggum á 3., og 4. braut en vann þau til baka á 5. og 6. braut með fuglum.
Mótið er sameiginlegt mót LPGA í Bandaríkjunum og LET Evrópumótaraðarinnar. Ólafía var á biðlista fyrir mótið en komst inn um s.l. helgi. Valdís Þóra Jónsdóttir úr GL var einnig á biðlista fyrir þetta mót en hún er með keppnisrétt á LET Evrópumótaröðinni.

Hægt er að fylgjast með stöðu og skori keppenda hér

Það verður spennandi að fylgjast með lokahringnum hjá Ólafíu á morgun og óskum við henni alls hins besta.

Golfklúbbur Reykjavíkur

Til baka í yfirlit