Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er íþróttamaður ársins 2017.
Árlegt hóf ÍSÍ og Samtaka íþróttafréttamanna, þar sem tilkynnt var um íþróttamann ársins, var haldið í Hörpu í kvöld. Samtök íþróttafréttamanna standa að kjörinu og var þetta í 62. sinn sem íþróttamaður ársins er valinn.
Þetta er í fyrsta sinn sem kylfingur hlýtur titilinn og í fyrsta sinn frá árinu 1994 sem ný íþróttagrein eignast íþróttamann ársins. Ólafía er vel að viðurkenningunni komin eftir frammistöðu sína á LPGA atvinnumótamótaröðinni sem hún keppti á sínu fyrsta tímabili nú á árinu og náði, eins og kunnugt er, frábærum árangri. Hún endaði í 74. sæti á stigalista mótaraðarinnar, sem ekki aðeins veitir henni þáttökurétt á mótaröðinni á næsta tímabili, heldur veitir henni einnig forgang á öll LPGA mót næsta árs.
Ólafía tók þátt í þremur af fimm risamótum ársins og varð fyrsti íslenski kylfingurinn sem kemst inn á risamót í golfi. Hún var einnig valin í úrvalslið LET-Evrópumótaraðarinnar sem keppti á Drottningarmótinu í Japan.
Alls tók Ólafía Þórunn þátt í 26 mótum á LPGA mótaröðinni í ár. Hennar besti árangur var 4. sæti sem hún náði á Indy Women in Tech mótinu í júlí. Ólafía náði tíunda besta árangri nýliða í sögu mótaraðarinnar.
Ólafía fór upp í 179. sæti heimslistans í golfi, sem er besti árangur íslensks kylfings, en hún stökk upp um 420 sæti á árinu. Árangurinn styrkir stöðu Ólafíu á að komast á Ólympíuleikana í Tókýó árið 2020.
Aðrir sem tilnefndir voru til íþróttamanns ársins voru: Aníta Hinriksdóttir, Aron Einar Gunnarsson, Guðjón Valur Sigurðsson, Gylfi Þór Sigurðsson, Helgi Sveinsson, Hrafnhildur Lúthersdóttir, Jóhann Berg Guðmundsson, Sara Björk Gunnarsdóttir og Valdís Þóra Jónsdóttir.
Við erum gríðarlega stolt af árangri Ólafíu Þórunnar á árinu og óskum henni innilega til hamingju með titilinn íþróttamaður ársins 2017.
Golfklúbbur Reykjavíkur