Ólafía Þórunn lauk lokahringnum á 71 höggi - tveimur höggum undir pari

Ólafía Þórunn lauk lokahringnum á 71 höggi - tveimur höggum undir pari

Ólafía Þórunn lauk leik á sínu fyrsta LPGA móti fyrir stuttu, hún lék lokahringinn á 71 höggi eða -2, samtals lék hún á -5 í mótinu (71-68-77-71) og endaði í 69.- 72. sæti. Aðstæður á Ocean vellinum voru nokkuð krefjandi í dag en mikið rok var eftir hádegi og um tíma duttu nokkrir regndropar á keppendur.

„Þetta var venjulegur dagur hjá mér miðað við það sem var í gangi í gær. Mér leið vel þegar ég vaknaði í morgun og ég vissi að þetta yrði allt öðruvísi en á þriðja hringnum,“ sagði Ólafía Þórunn Kristinsdóttir við golf.is rétt eftir að hún hafði lokið við sitt fyrsta LPGA mót á ferlinu á Ocean vellinum á Bahama-eyjum.

„Ég var með lag á heilanum á öllum hringnum eftir Jón Jónsson, Your Day, og það má þakka Thomas Bojanowski kærastanum mínum og aðstoðarmanni mínum í þessu móti fyrir það lagaval. Gott sálfræðitrix hjá honum,“ bætti Ólafía við en hún var að leika á sínu fyrsta LPGA móti á ferlinum.

„Ef ég dreg þetta mót saman þá var geggjað að fá að spila með Cheyenne Woods vinkonu minni fyrstu tvo hringina. Það hjálpaði mér mikið, sjálfstraustið er meira hjá mér eftir þetta mót en fyrir það. Ég hlakka til að takast á við næsta verkefni í Ástralíu og ég lærði helling af þessu móti. Ég fór aðeins að efast um sjálfa mig á þriðja hringnum en það er frábært að leika þrjá hringi af fjórum undir pari – ég tek það með mér í framhaldið.

Hún hóf leik á 10. teig í dag og byrjaði af krafti með því að fá tvo fugla á 11. og 14. braut. Á 11. braut var hún rétt við holuna eftir þriðja höggið og þurfti aðeins að ýta boltanum ofaní af stuttu færi. Á 14. braut setti hún niður um 7 metra pútt fyrir fugli.

Ólafía lék vel í dag en hún lenti í erfiðri stöðu á 16. braut þar sem að innáhöggið hennar fór of langt og endaði boltinn á versta stað í glompu fyrir aftan flötina. Ólafía gat ekki slegið beint á pinnann og varð að slá til hliðar inn á flötina. Hún átti um 45 metra pútt eftir og þrípúttaði af því færi. Á síðari 9 holunum var Ólafía í fuglafæri á öllum brautunum nema þeirri 9. Hún fékk góðan fugl á 7. braut þar sem hún setti niður mjög langt pútt fyrir fuglinum. Hún var ansi nálægt því að vera með nokkra fugla til viðbótar á hringnum.

Hún var í ráshóp með keppanda frá Suður-Kóreu, Sun Young Yoo, sem hefur sigrað á tveimur LPGA-mótum á ferlinum. Ólafía var á -3 samtals 69.-76. sæti fyrir lokahringinn.

Frétt fengin af golf.is

Til baka í yfirlit