Ólafía Þórunn upp um 103 sæti á heimslista kvenna

Ólafía Þórunn upp um 103 sæti á heimslista kvenna

Eins og kunnugt er náði Ólafía Þórunn sínum besta árangri á LPGA mótaröðinni um síðastliðna helgi þegar hún lauk leik á -13 á Indy Women in Tech Championship mótinu og endaði í fjórða sæti í mótinu, mótið var leikið í Indianapolis. Með árangri sínum rauk hún upp um 103 sæti á heimslista kvenna og situr nú í 197. sæti á listanum en hann var birtur í gær eftir mót helgarinnar.

Staðan á heimslistanum er gríðarlega mikilvæg fyrir stöðu keppenda fyrir Ólympíuleikana sem haldnir verða í Tokýó, Japan árið 2020. Alls komast 60 kylfingar inn á Ólympíuleikana hjá báðum kynjum eða 120 keppendur samtals. Viðamikið kvótakerfi er í gangi varðandi þátttökurétt keppenda og er það gert til þess að sem flestar þjóðir eigi möguleika á að koma keppendum inn á ÓL. Miðað við núverandi stöðu Ólafíu væri hún í hópi þeirra sem kæmust inn.

Ólafía Þórunn hafði þegar tryggt sér keppnisrétt á McKayson mótinu sem fram fer á Nýja-Sjálandi 28. sept – 1. okt. og þar sem hún færðist einnig ofar á peningalistanum eða í 67. sæti, tryggði hún sér einnig keppnisrétt á Swinging Skirts sem fram fer 19.-22. okt í Taívan, Sime Darby mótinu í Malasíu 26.-29. okt., og Blue Bay mótinu sem fram fer 8.-11. nóvember á Hainan í Kína.

Spennandi tímar framundan hjá okkar konu og óskum við henni alls hins besta á komandi mótum.

Golfklúbbur Reykjavíkur

Til baka í yfirlit