Ólafía valin til að keppa með liði Evrópu á Queens mótinu í Japan

Ólafía valin til að keppa með liði Evrópu á Queens mótinu í Japan

Ólafía Þórunn hefur verið valin til að keppa með liði Evrópu á Queens mótinu sem fram fer á Miyoshi vellinum í Japan dagana 1.- 3. desember.

Ólafía er hluti af sterku liði frá Evrópu og voru keppendur valdir af LET mótaröðinni. Aðrir keppendur í liðinu eru Gwladys Nocera, Melissa Reid, Florentyna Parker, Annabel Dimmock, Felicity Johnson, Joanna Klatten, Holly Clyburn og Carly Booth.

Keppnisfyrirkomulag mótsins er með þeim hætti að níu kylfingar skipa hvert lið. Fyrir sigur fást 2 stig, 1 stig fyrir jafntefli og 0 stig fyrir tap.

Á fyrsta keppnisdegi fara fram átta leikir í „four ball“ eða fjórbolta þar sem að tveir keppendur eru saman í liði og leika sínum bolta út holuna. Betra skor hjá liðinu telur á hverri holu. Á öðrum keppnisdegi fara fram níu tvímenningsleikir (singles) þar sem að tveir keppendur mætast í holukeppni og leika sínum bolta út holuna.

Samanlagður stigafjöldi frá fyrstu tveimur keppnisdögunum ræður síðan því hvaða lið mætast í úrslitaleiknum á þriðja keppnisdeginum. Liðin sem leika til úrslita keppa í fjórum leikjum þar sem fjórmenningur (foursome) verður notaður, en þar leika tveir keppendur saman í liði og leika einum bolta til skiptis. Sami háttur verður í bronsleiknum á þriðja keppnisdeginum.

Þetta er enn eitt skiptið á árinu sem Ólafía brýtur blað í íslenskri golfsögu en enginn íslenskur kylfingur hefur áður verið hluti af jafn stórri keppni og þessari.

Til baka í yfirlit