Opna spænska áhugamannamótið: fjórir íslenskir kylfingar taka þátt

Opna spænska áhugamannamótið: fjórir íslenskir kylfingar taka þátt

Fjórir íslenskir kylfingar hefja leik á Opna spænska áhugamannamótinu á morgun, miðvikudag. Meðal þeirra eru þær Saga Traustadóttir og Berglind Björnsdóttir úr GR, Guðrún Brá Björgvinsdóttir úr Keili og Aron Snær Júlíusson taka einnig þátt á mótinu.

Í kvennaflokki er leikið á Montecastillo Barcelo vellinum. Keppendur eru um 120 og margir af bestu áhugakylfingum heims taka þátt. Þrír stigahæstu kylfingar mótsins á heimslista áhugakylfinga eru frá Svíþjóð en þær eru Frida Kinhult (+4,2) sem er í 11. sæti heimslista áhugakylfinga. Amanda Linnér (+4,6) er nr. 22 og Beatrice Wallin (+3,6) sem er í 27. sæti. Guðrún Brá er í 100. sæti heimslistans og er hún í 13. sæti á styrkleikalista mótsins.

Í karlaflokki er leikið er á La Manga vellinum rétt við Murcia. Alls eru 120 keppendur og flestir af bestu áhugakylfingum heims mæta til leiks. Aron Snær er í 497 sæti heimslista áhugamanna og er í 54. sæti á styrkleikalista mótsins. Meðal keppenda í karlaflokki er Matthew Jordan frá Englandi sem er í 18. sæti heimslista áhugakylfinga en hann er með +6 í forgjöf. Keppt var í fyrsta sinn á þessu móti árið 1911. Margir þekktir kylfingar hafa sigrað á þessu móti og má þar nefna José María Olazábal (1983 og 1984), Darren Clark (1990), Sergio García (1998) og Gonzalo Fernández-Castaño (2003).

Við óskum íslensku kylfingunum góðs gengis á komandi móti.

Til baka í yfirlit