Sælar kæru GR konur,
Feikilega skemmtilegri og spennandi púttmótaröð er nú lokið.
Metþátttaka var á þessum vetri í mótaröð GR kvenna en rúmlega tvöhundruð konur skráðu sig til leiks í upphafi vetrar. Að meðaltali mættu um 150 konur á hverju púttkvöldi en púttað var vikulega á þriðjudögum í átta vikur og er það fjölgun um fjórðung frá því í fyrra. Tveir hringir voru spilaðir hvert kvöld þar sem betri hringur taldi og til púttmeistara töldu 4 bestu hringirnir.
Svo fór að lokum að þrjár konur stóðu jafnar í fyrsta sæti á 110 höggum fyrir fjóra bestu hringina sína, þær Steinunn Sæmundsdóttir, Lovísa Sigurðardóttir og Kristín Hassing. Þeim var gert að fara í þriggja holu umspil til að ná fram niðurstöðu í mótinu. Spilaðar voru 3ja, 10. og 13. holan. Að umspilinu loknu voru þær stöllur enn jafnar og því fór keppnin í bráðabana.
Fyrsta hola bráðabanans var fjórða holan á vellinum, fremur stutt braut og óljóst brot í henni og sló Steinunn fyrst, var aðeins of stutt og fór brautina á pari. Önnur í röðinni var Lovísa sem sló ákveðið og öruggt og strikaði boltann beint í holuna, einn undir. Og þá var komið að Kristínu, það mátti heyra saumnál detta, þvílík var spennan í Korpunni en bolti Kristínar vantaði örlítið upp á að ná í holuna, par var það og Lovísa stóð uppi sem sigurvegari í púttmótaröð GR kvenna.
Lovísa Sigurðardóttir er Púttmeistari GR kvenna árið 2017.
GR konur óska Lovísu Sigurðardóttur innilega til hamingju með frábæran árangur.
Þessi vetrarsamvera okkar, kæru GR konur, er augljóslega komin til að vera enda þátttakan mikil og jöfn - og það er ekki ónýtt til þess að hugsa fyrir okkur að ein af þátttakendunum í kvöld, Herdís Sigurðardóttir, er komin á tíræðisaldur og spilar enn eins og unglamb. En það eru auðvitað forréttindi okkar hinna að fá að taka þátt í leiknum með svona kempu sem ætti að vera okkur öllum fyrirmynd.
Við þökkum þátttökuna í púttmótaröðinni. Það styttist í vorið og við bíðum eflaust flestar spenntar eftir því að spretta út á græna grund og njóta golfs og samveru.
Meðfygjandi er lokastaðan eftir 8 púttkvöld
Framundan í starfinu eru árlegt fræðslu- og reglukvöld í lok apríl sem verður auglýst síðar.
Vorferðin okkar verður farin laugardaginn 20.maí. Endilega takið þann dag frá. Þá förum við á vit ævintýranna og spilum golf í sveit. Líkt og í fyrra verður þetta vissuferð, við ætlum að eiga góða dagsstund saman á Hellu.
Vorferðin hefur verið á meðal skemmtilegustu viðburða í starfi GR kvenna, eitthvað sem engin má missa af.
Við í kvennanefndinni hlökkum mikið til að starfa með ykkur áfram í vor og sumar, allar ábendingar um starfið eru vel þegnar sem og ef þið hafið möguleika á að aðstoða með vinninga fyrir komandi mót.
Kær kveðja,
Kvennanefnd GR