Securitasmótið á Eimskipsmótaröðinni hófst í morgun á Grafarholtsvelli. Á mótinu er í annað sinn í sögunni keppt um GR-bikarinn. Mótið er jafnframt lokamótið á Eimskipsmótaröðinni tímabilið 2016-2017. Aðeins stigahæstu kylfingar Eimskipsmótaraðarinnar á tímabilinu komast inn á þetta mót.
Hægt er að fylgjast með stöðu og skori keppenda í beinni hér á golf.is
Vikar Jónasson úr Keili stendur best að vígi fyrir Securitasmótið á stigalistanum í karlaflokki. Hann er efstur og í kvennaflokki er Ragnhildur Kristinsdóttir úr GR efst.
Vikar er með 4.000 stig í efsta sæti en Egill Ragnar Gunnarsson úr GKG er í öðru sæti með 3.600 stig.
Ragnhildur Kristinsdóttir úr GR varð stigameistari á Eimskipsmótaröðinni fyrir ári síðan og Axel Bóasson úr Keili varð efstur í karlaflokki.
Ljóst er að spennandi keppni er framundan um helgina og hvetjum við félagsmenn og aðra kylfinga til að koma og fylgjast með leiknum.