Þá er komið að því að kynna vinavöll númer sex í röðinni fyrir sumarið 2017 – Kálfatjarnarvöllur hjá Golfklúbbi Vatnsleysustrandar. Kálfatjarnarvöllur var í fyrsta sinn vinavöllur klúbbsins á síðasta ári og var hann vel sóttur af félagsmönnum. Það er von okkar að áframhaldandi aðsókn félagsmanna verði á völlinn sem liggur meðfram sjónum á Vatnsleysuströnd. Kálfatjarnarvöllur er 9 holu golfvöllur sem er stuttur en mjög krefjandi, margar skemmtilegar golfholur mynda þennan annars fallega völl. Öll sú aðstaða sem félagsmenn óska eftir er til staðar hjá Golfklúbbi Vatnsleysustrandar þegar völlurinn er heimsóttur – klúbbhús, æfingasvæði, vipp- og púttflöt.
Félagsmenn Golfklúbbs Reykjavíkur greiða kr. 2.500 í vallargjald í hvert sinn er þeir leika Kálfatjarnarvöll og skiptir þá ekki máli hvort leiknar séu 9 eða 18 holur. Áður en leikur hefst skulu félagar framvísa félagsskírteini og greiða vallargjald í afgreiðslu. Samkomulagið gildir ekki ef félagsmenn leika með hópum, sem gert hafa sérstaka samninga um afslætti af vallargjöldum, eins og t.d. fyrirtækjamót.
Heimasíðu Golfklúbbs Vatnsleysustrandar má sjá hér
Útbúinn verður bókunarlinkur á síðu GR á www.golf.is undir rástímar – vellir.
Með þessari frétt hefur Golfklúbbur Reykjavíkur tilkynnt um sex vinavelli fyrir komandi sumar og eru þeir eftirtaldir:
Svarfhólfsvöllur hjá Golfklúbbi Selfoss
Hamarsvöllur hjá Golfklúbbi Borgarness
Vestmannaeyjavöllur hjá Golfklúbbi Vestmannaeyja
Hústóftavöllur hjá Golfklúbbi Grindavíkur
Hólmsvöllur hjá Golfklúbbi Suðurnesja
Kálfatjarnarvöllur hjá Golfklúbbi Vatnsleysustrandar
Við munum áfram kynna vinavelli 2017 fyrir félagsmönnum á næstu vikum.
Góða helgi!
Ómar Örn Friðriksson,
framkvæmdarstjóri