Skemmtilegir tímar framundan – fyrsti vinavöllur sumarsins kynntur

Skemmtilegir tímar framundan – fyrsti vinavöllur sumarsins kynntur

Ágætu félagsmenn, nú hækkar sól á lofti með hverjum deginum og eru starfsmenn GR komnir á fulla ferð í undirbúning fyrir komandi sumar. Frá og með þessum föstudegi munum við kynna fyrir félagsmönnum okkar nýjan vinavöll á hverjum föstudegi næstu vikur og mánuði ásamt skemmtilegum nýjungum sem unnið er að til að auka þjónustu við félagsmenn.

Tekin var ákvörðun um að hafa vetraropnun á Landinu fyrir félagsmenn í byrjun vetrar og er gaman að segja frá því að margt er um manninn þegar vel viðrar. Landið verður opið í allan vetur en spilað er inn á vetrarflatir. Með þessari nýjung viljum við auka þjónustu við félagsmenn okkar. Samhliða þessu er Thorsvöllur opinn og geta félagsmenn á góðum degi leikið 18 holur.

Nú er sú nýjung í boði fyrir félagsmenn að sækja námskeið í jóga fyrir golfara sem kenndir verða í Worldclass Breiðholti. Þetta hefur ekki verið boðið upp á áður og er von okkar að félagsmenn taki vel í þessa nýjung. Einnig er í boði spennandi ferð til La Sella með Heimsferðum þarf sem félagsmönnum býðst golfferð á góðum kjörum undir frábærri fararstjórn. Mjög góð skráning er í ferðina og skorum við á alla þá sem áhuga hafa að skoða þetta skemmtilega tilboð að leita sér upplýsinga hér á vefsíðu okkar.

Púttmótaröð karla- og kvenna hefjast í næstu viku og eru þessi viðburðir alltaf vel sóttir af félögum okkar. Við skorum einnig á nýja félagsmenn að mæta og kynnast þeim félögum sem fyrir eru.

Þetta ásamt mörgu öðru er í vinnslu hjá okkur fyrir komandi sumar og verður kynnt fyrir ykkur eins og fyrr segir á næstu vikum og mánuðum.

Fyrsti vinavöllur GR 2017 kynntur:
Það er okkur sönn ánægja að kynna fyrsta vinavöllinn fyrir komandi tímabil – Svarfhólsvöll hjá Golfklúbbi Selfoss. Er þetta í annað sinn sem þessi klúbbar fara í samstarf og þykir okkur afar ánægjulegt að tilkynna þessar fréttir til félagsmanna okkar. Svarfhólsvöllur er glæsilegur 9 holu völlur á besta stað á Selfossi. Það er allt í boði fyrir félagsmenn okkar þegar Golfklúbbur Selfoss er heimsóttur - glæsilegt klúbbhús, veitingaaðstaða og æfingasvæði. Í raun allt það sem félagsmenn GR þurfa áður haldið er af stað á völlinn.
Sömu reglur gilda á Svarfhólsvelli eins og síðasta sumar. Félagsmenn Golfklúbbs Reykjavíkur greiða kr. 1700 í vallargjald í hvert sinn er þeir leika á Svarfhólsvelli og skiptir ekki máli hvort leiknar séu 9 eða 18 holur. Áður en leikur hefst skulu félagar framvísa félagsskírteini og greiða vallargjald í afgreiðslu.

Samkomulagið gildir ekki ef félagsmenn leika með hópum, sem gert hafa sérstaka samninga um afslætti af vallargjöldum, eins og t.d fyrirtækjamót.


Ómar Örn Friðriksson,
Framkvæmdastjóri

Til baka í yfirlit