Sumarstarf GR kvenna hefst af fullum krafti á næstu dögum

Sumarstarf GR kvenna hefst af fullum krafti á næstu dögum

Nú fer sumarstarfið GR kvenna að hefjast fyrir alvöru.

Í viðhengi er dagskrá sumarsins. Endilega merkið inn á dagatalið og takið frá dagana.

Við hefjum leik með árlegu fræðslu- og reglukvöldi sem haldið verður í Golfskálanum í Grafarholti þann 10.maí nk. Þar munu Gauti Grétarsson sjúkraþjálfari og Aðalsteinn Örnólfsson yfirdómari GR heiðra GR konur með nærveru sinni og fræða um hagkvæm ráð til að ná betri árangri á vellinum. Þá mætir hann Skúli okkar með ýmislegt nytsamlegt til golfsins og er tilbúinn að skipta á gripum fyrir GR konur ef með þarf.

Þá er komið að árlegri vorferð GR kvenna sem farin verður laugardaginn 20.maí.

Í ár verður farið á Hellu og það er næsta víst að vel verður tekið á móti GR konum á þessum vinsæla golfvelli. Brottför er frá Grafarholtinu um tíuleytið, spilað er 4 manna Texas Scramble og við ljúkum deginum á ljúfum veitingum og verðlaunaafhendingu í mótslok. Heimkoma er áætluð um kl. 21:00

Í lok maí hefst Sumarmótaröð GR kvenna en fyrirkomulagið er líkt og síðustu sumur, spilað er annanhvern miðvikudag ýmist á Korpunni eða í Grafarholtinu frá 31.maí fram til 9.ágúst, alls 7 skipti. Fjórir bestu hringirnir telja til Sumarmótameistara GR kvenna 2017. Skráning er í rástíma frá því völlur opnar og fram á kvöld eða á meðan birta leyfir. Gerð er krafa um að amk tvær í mótinu séu saman í holli.

Við endum leikana glæsilega í mótslok og krýnum meistarann okkar.

Uppskeruhátíðin okkar verður að þessu sinni í Grafarholtinu þann 10.september. Þá fögnum við saman góðu gengi á vellinum yfir sumarið og rifjum upp góðar stundir og glæsitilþrif.

Þessu til viðbótar er að sjálfsögðu Meistaramót GR sem fram fer dagana 2. - 8.júlí ásamt innanfélagsmótum á vegum klúbbsins. Það er því af nógu að taka og örugglega eitthvað fyrir allar.

Hlökkum mikið til að sjá ykkur sem flestar í sumar.

Kærar kveðjur,

Kvennanefnd GR
Elín Ásgríms, Elín Sveins, Elísabet Jóns, Eygló Gríms, Guðný Sigriður, Íris Ægis, Ragnheiður Helga, Sandra Margrét og Unnur Einars.

Til baka í yfirlit