Hátt í 200 GR-félagar mættu til leiks í Áramótapúttmót sem boðað var til á gamlársdag.
Spilaðar voru 18 holur og svo var boðið uppá kaffi, kökur og konfekt fyrir og eftir leik og myndaðist góð stemning meðal þátttakenda. Glæsileg verðlaun voru í boði fyrir fimm efstu sætin. Baráttan um verðlaunin var hörð og kom „heimavöllurinn“ sterkur inn þar sem þrír af fimm verðlaunahöfum eru úr heldra genginu sem púttar 6 sinnum í viku allan veturinn. Sem segir okkur að æfingin skapar meistarann.
Úrslitin urðu eftirfarandi:
Þrír voru efstir og jafnir á 25 höggum og hlaut Haukur V. Guðmundsson efsta sætið eftir hlutkesti og Jónas Þorvaldsson varð annar. Stórkylfingurinn Guðmundur Ágúst var að láta sér nægja þriðja sætið. Fjórða varð Ólöf Inga á 26 höggum með betri seinni hring en Hannes G. Sigurðsson sem var fimmti.
Þetta var skemmtileg leið til að enda golfárið saman og þökkum við félagsmönnum fyrir þátttökuna.
Golfklúbbur Reykjavíkur